Handbolti

Ágúst ekki bjartsýnn á að Rakel geti spilað á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir.
Rakel Dögg Bragadóttir. Mynd/Stefán
Ágúst Jóhannsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, er ekki bjartsýnn á að Rakel Dögg Bragadóttir verðir búin að ná sér af veikindum fyrir leikinn mikilvæga á móti Rússum á EM kvenna í handbolta á morgun. Rakel veiktist í morgun og var ekki með landsliðinu á æfingu í kvöld.

Íslenska landsliðið mætir Rússum í lokaleik riðilsins á morgun og þarf að vinna til þess að komast í milliriðil. Rússar eru með stigi meira og nægir jafntefli í leiknum.

Rakel hefur verið í einangrun síðan í morgun og flutti sem dæmi herbergisfélaginn hennar Jóna Margrét Ragnarsdóttir út úr herberginu til þess að forðast það að pestin berist á milli leikmanna liðsins.

Allar aðrar í liðinu voru með á æfingunni í kvöld og ættu að vera klárar í leikinn svo framarlega sem veikindin hafi ekki smitast á milli stelpnanna í liðinu en Ágúst liggur eflaust á bæn um að svo verði nú ekki enda má íslenska liðið ekki við miklu skakkaföllum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×