Handbolti

Þjálfari Rúmena óskaði eftir íslenskum sigri

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Gheorghe Tadici
Gheorghe Tadici Mynd/Stefán
Lokaumferðin í D-riðli á EM kvenna í handbolta í Serbíu fer fram í kvöld og þar spila Ísland og Rússland úrslitaleik um sæti í milliriðlinum. Rúmenía tryggði sér sæti í milliriðlinum með sigri sínum á Íslandi í fyrrakvöld en mun hinsvegar græða á íslenskum sigri í kvöld.

Rúmenska liðið var á æfingu á eftir því íslenska í gærkvöldi og liðin hittust þegar íslensku stelpurnar yfirgáfu salinn eftir sína æfingu. Það vakti athygli að Gheorghe Tadici, þjálfari Rúmena, gaf sig þá á tal við Ágúst Jóhannsson, þjálfara íslenska liðsins.

Gheorghe Tadici talar ekki ensku en hann var með túlk sér við hlið sem hjálpaði honum að koma beiðni sinni á framfæri. Tadici bað Ágúst nefnilega um að vinna Rússland á morgun en þau úrslit myndu koma sér vel fyrir Rúmena sem eru komnir áfram í milliriðilinn.

Vinni Ísland leikinn við Rússa þá fá Rúmenar bæði stigin úr leiknum við íslensku stelpurnar en vinni Rússar þá missa þær rúmensku stig, Rúmenar náðu nefnilega aðeins í eitt stig út úr leik sínum á móti þeim rússnesku.

Ágúst svaraði að hann og íslensku stelpurnar skyldu gera sitt besta í þessum leik sem hefst klukkan 17.05 að íslenskum tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×