Handbolti

Hanna Guðrún stríddi liðsfélögum sínum í viðtölunum

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Hanna Guðrún Stefánsdóttir er létt og skemmtileg og notar greinilega hvert tækifæri til að koma liðsfélögum sínum í íslenska kvennalandsliðinu í enn betra skap. Fjölmiðlamenn fengu að kynnast prakkaranum Hönnu Guðrún Stefánsdóttur í viðtölum eftir æfingu liðsins í gær.

Jenný Ásmundsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir voru þá í viðtölum við Vísi og Stöð 2 og Hanna truflaði þau bæði á eftirminnilegan hátt. Í fyrra skiptið var hún bara ein á ferð en í hið síðara var hún komin með Dagnýju Skúladóttur með sér í prakkaraskapinn.

Jenný hreinlega missti sig yfir gríni Hönnu og tók nokkurn tíma að komast í gegnum hláturskastið sitt og Þórey Rósa vissi ekki hvað á sig stór veðrið þegar Hanna og Dagný fífluðust fyrir framan hana.

Jenný og Þóreyju tókst þó að klára viðtölin með sóma þrátt fyrir fíflagang liðsfélaga sinna en íslenski hópurinn gat örugglega hlegið að þessu uppátæki langt fram á kvöld. Það var hið besta mál enda mikilvægt fyrir stelpurnar að létta andann eftir tvö sár töp í röð.

Í myndbandinu hér fyrir ofan má sjá viðtalið þar sem að Jenný markvörður fær að kenna á prakkaranum Hönnu G.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×