Handbolti

Jenný: Þetta er bara eins og bikarúrslitaleikur

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Jenný Ásmundsdóttir.
Jenný Ásmundsdóttir. Mynd/Stefán
Jenný Ásmundsdóttir hefur spilað þrjá góða hálfleiki í fyrstu tveimur leikjum íslenska liðsins á Evrópumóti kvenna í handbolta í Serbíu en það er ljóst að hún þarf að vera í stuði á móti Rússum í kvöld ætli íslensku stelpurnar að tryggja sér sæti í milliriðlinum.

„Þetta er bara úrslitaleikur og það er alltaf gaman að spila úrslitaleiki," sagði Jenný Ásmundsdóttir eftir æfingu liðsins í gær. „Við höfum bætt okkur mikið á milli leikja og spiluðum vel í 55 mínútur á móti Rúmenunum. Þetta virðist allt vera á uppleið og ný hljótum við að ná því að láta þetta allt smella hjá okkur í þriðja leiknum," sagði Jenný.

„Við þurfum að nýta betur hröðu upphlaupin, fyrsta og annað tempó því við höfum ekki nýtt það nógu vel þegar við erum að vinna boltann í vörninni. Svo þurfum við að laga sóknarleikinn líka," sagðio Jenný en hvernig lýst henni á að glíma við rússnesku skytturnar í kvöld.

„Það verður bara glíma. Þetta eru stórar og öflugar stelpur sem eru ekkert ósviðaðar þeim rúmensku. Þær eru kannski sterkari en við líkamlega en það þarf bara að standa vörnina og taka skotin," sagði Jenný en íslensku stelpurnar geta endurskrifað söguna með sigri og komist áfram í milliriðil.

„Það er mikið í boði fyrir okkur. Þetta er bara eins og bikarúrslitaleikur. Það er bara vinna eða fara heim og engan langar að fara heim," sagði Jenný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×