Handbolti

Þær rússnesku rosalegar á lokamínútunum

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Stella Sigurðardóttir.
Stella Sigurðardóttir. Mynd/Stefán
Íslenska kvennalandsliðið mætir Rússlandi í kvöld í síðasta leik sínum í riðlakeppni EM kvenna í handbolta í Serbíu en í boði er sæti í milliriðli keppninnar. Þetta verður erfitt verkefni fyrir íslensku stelpurnar og þær verða að passa sig á lokakaflanum þar sem Rússarnir hafa farið á kostum.

Rússneska kvennalandsliðið hefur reyndar aðeins fengið eitt stig út úr fyrstu tveimur leikjum sínum á Evrópumótinu en liðið gerði 21-21 jafntefli við Rúmeníu og tapaði 27-30 fyrir Svartfjallalandi. Í báðum leikjum hafa rússnesku stelpurnar verið rosalegar á lokakaflanum.

Rússar voru 13-18 undir á móti Rúmeníu þegar 14 mínútur voru eftir en tryggðu sér jafntefli með því að vinna lokakafla leiksins 8-3. Svartfjallaland var 28-18 yfir á móti Rússum þegar 15 mínútur voru eftir en Rússar unnu lokakafla leiksins 9-2 og töpuðu því leiknum aðeins með þremur mörkum.

Rússneska liðið hefur þar með unnið lokakafla sinna leikja 17-5 en uppskeran er rýr þar sem liðið hefur tapað fyrstu 45 mínútunum 31-46 eða fimmtán marka mun.

Rússland - gengi liðsins á EM 2012 innan leikjanna:

1. til 15. mínúta - 13-16 (-3)

16. til 30. mínúta - 8-16 (-8)

31. til 45. mínúta - 11-13 (-2)

46. til 60. mínúta - 16-6 (+10)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×