Innlent

Búin að missa þau öll

Erla Hlynsdóttir skrifar
Kona sem var ólétt af fimmburum, og lét eyða tveimur fóstrum til að auka lífslíkur hinna þriggja, hefur nú misst öll fóstrin. Hún og eiginmaður hennar skrifa opinskátt á netið um um reynslu sína.

Það vakti þjóðarathygli þegar Fréttatíminn greindi frá því í júní að par í Reykjavík ætti von á fimmburum, enda var þetta í fyrsta sinn sem þetta gerðist hér á landi.

Konan var þá komin þrjá mánuði á leið og ráðlögðu læknar henni að láta eyða þremur fóstrum enda fimmburameðganga áhættusöm fyrir bæði móður og börn.

Yfirlæknir á kvennadeild Landspítalans sagði þar í viðtali að fækkun á fóstrum feli í sér fimm prósenta áhættu á fósturláti fyrir þau fóstur sem eftir eru. Hætta á fósturláti í fimmburameðgöngu sé hins vegar meiri.

Allir helstu miðlar landsins tóku málið upp og tóku margir einnig viðtal við hjónin.

Þau tóku loks þá erfiðu ákvörðun að fækka fóstrunum í þrjú og var rætt við þau í Fréttatímanum um það í júlí.

Hjónin héldu úti vefsíðu um meðgönguna og hafa þar skrifað um þá reynslu að missa fóstrin þrjú þegar þau voru um 22ja vikna gömul, eftir að legháls konunnar gaf sig. Þegar fréttastofa ræddi við hjónin í dag veittu þau góðfúslega leyfi til að fjalla um málið en þau treystu sér ekki í viðtal að svo stöddu.

Þau eru nú á leið til Mexíkó, heimalands konunnar, til að vera með fjölskyldu hennar og reyna að ná áttum.

Uppfært klukkan 22.07: Í fréttinni var áður missagt að fóstrin hafi verið 20 vikna gömul en þau voru í raun 22ja vikna gömul. Þá segir móðirin í samtali við fréttastofu að hún leggi áherslu á að talað sé um börnin hennar, en ekki fóstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×