Handbolti

Guðjón Valur með 90 prósent skotnýtingu á HM félagsliða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Mynd/AFP
Guðjón Valur Sigurðsson varð markahæsti leikmaður Kiel í riðlakeppninni á HM félagsliða í Katar en íslenski landsliðsmaðurinn hefur skorað 20 mörk í fyrstu þremur leikjunum eða 6,7 mörk að meðaltali í leik.Guðjón Valur skoraði fimm mörkum meira en nýja serbneska skytta Marko Vujin

Það vekur athygli að skotnýting Guðjón Vals hefur verið frábær á þessu móti en hann hefur nýtt 20 af 22 skotum sínum eða 90,9 prósent skotanna samkvæmt tölfræði mótshaldara. Guðjón hefur skorað 11 marka sinna úr hraðaupphlaupum, fjögur úr horninu og fjögur af línunni. Eitt marka hans hefur komið með langskoti.

Guðjón Valur hefur skorað átta mörkum meira en Dominik Klein, hinn vinstri hornamaðurinn í leiðinu. Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, hefur skipt leiktímanum á milli þeirra og hefur Klein nýtt 12 af 15 skotum sínum eða 80 prósent.

Aron Pálmarsson hefur spilað mest af öllum leikmönnum Kiel á mótinu en Aron er með 7 mörk og 7 stoðsendingar í fyrstu þremur leikjum liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×