Handbolti

Svíar slógu Dani út og mæta Ungverjum í undanúrslitunum á ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Svíar fagna hér sigri.
Svíar fagna hér sigri. Mynd/AFP
Svíar eru komnir áfram í undanúrslitin í handboltakeppni Ólympíuleikanna eftir 24-22 sigur á Danmörku í átta liða úrslitunum í kvöld. Þar með hafa tvær þjóðir, sem íslenska liðið vann í riðlakeppninni, tryggt sér sæti í undanúrslitunum því fyrr í kvöld slógu Frakkar út Spánverja.

Svíar mæta Ungverjum í undanúrslitunum en Ungverjar unnu íslenska landsliðið í sárgrætilegum tvíframlengdum leik í morgun.

Svíar náðu tveggja marka forskoti í upphafi leiks á móti Dönum og voru með frumkvæðið allan leikinn. Svíþjóð var 11-9 yfir í hálfleik og náði mest þriggja marka forskoti, 14-11, þegar fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum.

Danir komust í 18-17 þegar tæpar þrettán mínútur voru eftir en sænska liðið náði frumkvæðinu strax aftur og Niclas Ekberg tryggði þeim sigurinn með því að skora tvö síðustu mörk leiksins.

Dalibor Doder skoraði mest fyrir Svía eða sex mörk og það kom ekki að sök að Kim Andersson nýtti aðeins 2 af 9 skotum sínum. Hans Lindberg var markahæstur hjá Dönum með sex mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×