Handbolti

Óskar Bjarni með á æfingum: Ólympíuleikarnir mitt mót

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í London skrifar
Óskar Bjarni Óskarsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, tók þátt í æfingu íslenska landsliðsins í gærmorgun af fullum krafti og virtist engu hafa gleymt frá árum sínum sem leikmaður.

„Ég viðurkenni að ég var kannski ekki besti varnarmaðurinn á æfingunni. Það fóru ekki margir í gegn - kannski þrír eða fjórir. En það var gaman að vera með," sagði hann en viðtalið má sjá hér fyrir neðan.

„Þetta var svipað og á æfingunum með Óla í gamla daga," bætti hann við. „Það er auðvitað slæmt að hafa ekki alla með á æfingum, sérstaklega þar sem við erum fáir fyrir. Enda er ég mest með á Ólympíuleikunum - þetta er mitt mót."

Óskar Bjarni stóð vörnina gegn Ásgeiri Erni sem bar honum söguna vel. „Hann var mjög erfiður. Það var erfitt að finta hann og hann var góður að hjálpa. Hann var alveg með þetta. Hann kann þetta allt saman - enda þjálfari og á að kunna þetta."

Ísland mætir Argentínu í fyrsta leik á morgun og viðurkennir Óskar Bjarni að staða liðsins sé ekki eins góð og hann hefði vonast til, enda hafa leikmenn verið meiddir í sumar - nú síðast Snorri Steinn Guðjónsson sem gat ekki æft í gær.

„Við vitum að þetta er þarna og það hafa komið kaflar inn á milli sem hafa verið fínir. En mér finnst við eiga smá í land - ég verð að viðurkenna það," sagði Óskar Bjarni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×