Handbolti

Hreiðar Levý bjargaði strákunum okkar gegn Túnis

Hreiðar spilaði frábærar 15 mínútur í dag.
Hreiðar spilaði frábærar 15 mínútur í dag. mynd/vilhelm
Strákarnir okkar höfnuðu í þriðja sæti á æfingamóti í Frakklandi. Þeir unnu bronsleikinn gegn Túnis, 31-27, en Túnis er einn af andstæðingum íslenska liðsins á ÓL í London. Hreiðar Levý Guðmundsson markvörður kom til bjargar er staðan var orðin mjög slæm.

Íslenska liðið byrjaði fyrri hálfleikinn ekki vel og lenti fljótlega þrem mörkum undir, 2-5. Því forskoti héldu Túnisar fram í miðjan hálfleik er Ísland náði loksins að jafna, 15-15.

Ísland fékk mörg tækifæri til þess að taka forystuna en nýtti aldrei. Var alltaf að elta og jafna. Staðan í hálfleik var 15-15.

Varnarleikurinn var ekkert sérstakur, mikið bras var á sóknarleiknum lengstum og leikmenn að gera sig seka um klaufamistök. Þeir voru svo seinir til baka og gáfu Túnisum allt of mörg auðveld mörk.

strákarnir byrjuðu seinni hálfleikinn vel og komust loksins yfir, 17-16. Eftir það datt allt í sama farið á ný, Túnisar gengu á lagið og náðu fjögurra marka forskoti, 20-24.

Skömmu síðar kom Hreiðar Levý í markið og hann gerði gæfumunin. Hann hreinlega lokaði búrinu og sá til þess að Ísland komst aftur inn í leikinn og svo yfir, 27-26.

Túnisar nánast gáfust upp í kjölfarið og strákarnir unnu fjögurra marka sigur, 31-27.

Hreiðar Levý var bjargvættur íslenska liðsins og varði frábærlega. Ólafur Stefánsson var magnaður, Snorri Steinn og Alexander drjúgir en aðrir léku undir getu.

Þetta var alls ekki nógu sannfærandi leikur hjá strákunum. Haugur af mistökum og ekki bætti úr skák að Guðjón Valur og Aron Pálmarsson léku ekkert í síðari hálfleik. Það er engu að síðar styrkleikamerki að klára leikinn þrátt fyrir að hafa ekki spilað vel.

Mörk Íslands (skot): Ólafur Stefánsson 10/2 (11/2), Snorri Steinn Guðjónsson 8/2 (12/4), Alexander Petersson 6 (10), Kári Kristján Kristjánsson 2 (2), Guðjón Valur Sigurðsson 2 (5), Arnór Atlason 1 (2), Ingimundur Ingimundarson 1 (2), Aron Pálmarsson 1 (3).

Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 11, Hreiðar Levý Guðmundsson 9.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×