Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Holland 41-27

Stefán Árni Pálsson í Laugardalshöll skrifar
Íslenska landsliðið í handknattleik vann mjög þægilegan sigur á Hollendingum, 41-27, í fyrri leik liðanna um laust sæti á HM á Spáni 2013. Ísland byrjaði leikinn nokkuð illa en komst fljótlega í takt og keyrðu síðan yfir gestina í síðari hálfleiknum . Snorri Steinn Guðjónsson var frábær í liði Íslands og gerði níu mörk.

Íslenska liðið byrjaði nokkuð illa í kvöld og áttu erfitt með að stöðva sóknarleik Hollendinga. Vörnin var ósannfærandi og Björgvin Páll varði lítið sem ekkert í markinu. Þegar leið á fyrri hálfleikinn fóru hlutirnir að ganga betur og fljótlega voru strákarnir okkar komnir með yfirhöndina. Hreiðar Leví Guðmundsson var komin í markið og varði virkilega vel. Staðan var 17-14 í hálfleik en Hollendingar aldrei langt undan.

Í síðari hálfleiknum var í raun aðeins eitt lið inná vellinum og juku Íslendingar við forskot sitt jafnt og þétt. Mörkin komu mörg hver eftir hraðaupphlaup en það hefur verið leikstíll Íslendinga mörg ár. Liðið rúllaði yfir lánlausa Hollendinga síðasta korterið og varð sigurinn stór að lokum 41-27. Ísland er því með frábært veganesti fyrir síðari leikinn og komnir með níu putta til Spánar.

Guðmundur Guðmundsson: Verðum að vera sáttir með svona stóran sigur
„Leikurinn var virkilega kaflaskiptur en liðið lék fínan sóknarleik allan leikinn," sagði Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Íslands, eftir sigurinn í kvöld.

„Varnarleikurinn byrjaði illa og markvarslan sömuleiðis. Það tók okkur ákveðin tíma að komast almennilega inn í leikinn en það tókst í síðari hálfleiknum."

„Við getum verið mjög sáttir við 14 marka sigur og erfitt að kvarta yfir því. Við verðum að nota næstu viku vel og mæta á fullu í síðari leikinn, eins og við gerum alltaf."

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu hér að ofan.

Aron Pálmarsson: Við verðum mjög líklega með á HM 2013
Mynd/Daníel
„Fyrri hálfleikurinn var mjög lélegur af okkar hálfu," sagði Aron Pálmarsson, leikmaður íslenska landsliðsins, eftir leikinn í kvöld.

„Kannski var eitthvað vanmat í gangi hjá okkur og þess vegna byrjum við svona illa. Sem betur fer áttuðum við okkur á því í hálfleik hvað við þyrftum að laga."

„Liðið mætti síðan ákveðið til leiks og þá fóru hlutirnir að ganga. Við erum eðlilega sáttir með 14 marka sigur. Þeir sprungu síðasta korterið og þá sást hver munurinn er á liðinum.

„Ég vill helst ekki vera með neinar yfirlýsingar en ég tel nokkuð víst að liðið verði með á heimsmeistaramótinu á Spáni árið 2013."

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu við Aron með því að ýta hér.

Bjarki Már: Fékk smá kvíðakast þegar ég frétti að Guðjón yrði ekki með
Bjarki Már Elísson kom óvænt inn í byrjunarliðið þar sem Guðjón Valur Sigurðsson gat ekki tekið þátt í leiknum sökum meiðsla. Bjarki stóð svo virkilega vel og gerði fimm mörk kvöld.

„Mér líður rosalega vel eftir þennan leik, en þetta var nokkuð erfið fæðing hjá okkur," sagði Bjarki Már eftir leikinn.

„Þegar ég frétti að Guðjón Valur myndi ekki spila þennan leik þá fékk ég kvíðakast í svona tíu mínútur, en fljótlega fór ég bara að einbeita mér að leiknum".

„Við verðum að halda áfram okkar striki og erum alls ekkert á leiðinni til Hollands með hálfum hug, þetta er ekki alveg búið."

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu við Bjarka með því að ýta hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×