Handbolti

Kim Andersson: Það yrði algjör draumur að spila með Óla Stefáns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason ræðir hér við Kim Andersson.
Alfreð Gíslason ræðir hér við Kim Andersson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Sænska stórskyttan Kim Andersson var í dag kynntur formlega sem leikmaður AG Kaupmannahöfn á næsta tímabili en Andersson hefur spilað með þýska liðinu Kiel undanfarin sjö tímabil.

„Það yrði algjör draumur að spila með Ólafi Stefánssyni," sagði Kim Andersson í viðtali við sporten.tv2.dk en þeir spila báðir í stöðu hægri skyttu. Andersson er tíu árum yngri en Ólafur sem verður 39 ára í sumar.

Ólafur er ekki búinn að taka neina ákvörðun með næsta tímabil en hann ætlar fyrst að einbeita sér að því að spila með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum í London.

„Ólafur er að mínu mati besta hægri skyttan í heiminum og ég hef lengi dreymt um að fá að spila með honum. Ég hef aðeins fengið að kynnast því að spila á móti honum en ég er viss um að það hjálpi mínum leik að spila með honum," sagði Andersson.

Kim Andersson varð í vetur þýskur meistari í sjötta sinn en hann vann einnig Meistaradeildina í þriðja sinn og þýska bikarinn í fimmta sinn. Andersson var sænskur meistari tvö síðustu tímabil sín með Sävehof og hefur því unnið meistaratitil átta sinnum á síðustu níu tímabilum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×