Handbolti

Strákarnir hans Patta töpuðu með fimm mörkum í Makedóníu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson. Mynd/Stefán
Austurríki tapaði 21-26 fyrir Makedóníu í dag í fyrri leik liðanna í umspili um sæti á HM í handbolta sem fer fram á Spáni á næsta ári. Seinni leikurinn fer fram í Vín í Austurríki um næstu helgi.

Makedóníumenn voru sex mörkum yfir í hálfleik, 16-10 eftir að hafa komist mest átta mörkum yfir (14-6) eftir 24 mínútur. Roland Schlinger skoraði lokamark leiksins á síðustu sekúndunum og það mark gæti orðið dýrmætt þegar upp er staðið. Raul Santos skoraði flest mörk fyrir Austurríki eða fimm.

Patrekur Jóhannesson er þjálfari austurríska landsliðsins en liðið þurfti að fara í gegnum undankeppni til þess að komast í umspilið þar sem að íslenska landsliðið sá til þess í fyrrasumar að Austurríki komst ekki á EM í Serbíu fyrr á þessu ári.

„Vörnin okkar var góð í dag en við vorum í vandamálum í sókninni þar sem við gerðum of mörg tæknimistök. Liðið barðist samt vel og það er ekki auðvelt að spila hér. Við eigum ennþá möguleika fyrir framan fulla höll í næstu viku," sagði Patrekur í viðtali á heimasíðu austurríska sambandsins.

Íslenska landsliðið tekur einnig þátt í umspilinu og mætir Hollandi í Laugardalshöllinni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×