Handbolti

Lövgren lofar Ólaf og Alexander

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander Petersson í leik með Füchse Berlin.
Alexander Petersson í leik með Füchse Berlin. Nordic Photos / Getty Images
Úrslitin í Meistaradeild Evrópu ráðast í Köln í Þýskalandi um helgina og hefur Svíinn Stefan Lövgren sagt sitt álit á mikilvægustu leikmönnum þeirra fjögurra liða sem þar keppa.

Undanúrslitin fara fram á laugardaginn og úrslitin svo á sunnudag. Füchse Berlin mætir Kiel annars vegar og hins vegar eigast við Atletico Madrid og AG Kaupmannahöfn.

Lövgren verður sérstakur sendiherra Evrópska handknattleikssambandsins á úrslitahelginni en hann vann marga titla bæði með sænska landsliðinu og Kiel. Hann hefur tekið út þrjá leikmenn úr hverju liði sem hann telur gegna mikilvægum hlutverkum.

Ólafur Stefánsson er nefndur í liði AG og Alexander Petersson hjá Füchse Berlin.

„Ólafur var lengi frá vegna meiðsla en hefur náð fullri heilsu á hárréttum tíma," segir Lövgren um Ólaf. „Hann er einn fárra leikmanna sem getur ráðið úrslitum leikja upp á sitt einsdæmi."

„Honum tekst að stýra leik AG úr hægri skyttustöðunni og það stafar hætta af honum í hvert sinn sem hann miðar á markið - fullkominn leikstjórnandi!"

Alexander Petersson missti einnig af stórum hluta tímabilsins vegna meiðsla en hefur allur verið að koma til.

„Hann er eins og hvirfilbylur og gegnir mikilvægu hlutverki bæði í vörn og sókn. Hann hikar ekki við að skjóta á markið úr erfiðri stöðu og er eldsnöggur fram í hraðaupphlaupum," sagði Lövgren.

„Hann er afar Füchse Berlin afar mikilvægur og ég vona bara að meiðslavandræði hans í öxlinni komi ekki til með að há honum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×