Handbolti

Liðsfélagar Guðjóns Vals hrósa honum í hástert

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Mynd/Heimasíða AGK
Guðjón Valur Sigurðsson verður í sviðsljósinu með AG Kaupmannahöfn á úrslitahelgi Meistaradeildarinnar um helgina og liðsfélagar hans hafa verið að hrósa honum í viðtölum í dönskum fjölmiðlum. DR sport fékk reyndar ekki viðtal við Guðjón sjálfan en talaði við Lars Jörgensen og Mikkel Hansen um íslenska landsliðsmanninn.

„Ég held að hann hafi sagt að hann ætli ekki að tala við neina fjölmiðla fyrr en hann er farinn að lata lýtalausa dönsku. Hann er kannski smá fjölmiðlafeiminn," sagði Lars Jörgensen og bætti við:

„Ef þú spyrð handboltaspekinga þá munu þeir örugglega tala um hann sem einn af bestu vinstri hornamönnum undanfarin tíu til fimmtán ár," sagði Jörgensen. Mikkel Hansen, besti handboltamaður í heimi er líka ánægður með Guðjón Val.

„Hann er ótrúlegur leikmaður sem er alltaf á ferðinni. Hann er innblástur fyrir alla aðra leikmenn liðsins. Guðjón hefur átt frábært tímabil og hefur skorað mikið, bæði úr horninu og úr hraðaupphlaupum. Ég tel hann vera fullkominn hornamann," sagði Mikkel.

Guðjón Valur ætlar að kveðja AG eftir tímabilið því hann er á leiðinni til þýska stórliðsins THW Kiel.

„Það synd að við þurfum að kveðja hann. Hann hefur slegið í gegn með okkur," sagði Lars Jörgensen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×