Handbolti

Sögusagnir í Þýskalandi: Guðmundur að hætta með Löwen

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands og þjálfari Rhein-Neckar Löwen, gæti verið að stýra þýska liðinu í síðasta skipti í tveimur síðustu umferðum þýsku úrvalsdeildarinnar ef marka má fréttir frá Handball-planet.com. Handboltasíðan segir að Velimir Petkovic, þjálfari Göppingen, gæti verið á leið til Löwen.

Velimir Petkovic hefur þjálfað Frisch Auf Göppingen frá árinu 2004 en liðið vann EHF-bikarinn undir hans stjórn á síðustu leiktíð og liðið er aftur komið í úrslitaleikinn í ár þar sem Göppingen mætir franska liðinu Dunkerque.

Guðmundur hefur þjálfað Rhein-Neckar Löwen undanfarin tvö tímabil ásamt því að stýra íslenska landsliðinu. Rhein-Neckar-Löwen er í 5. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar þegar aðeins tvær umferðir eru eftir og á ekki lengur möguleika á Meistaradeildarsæti.

Forráðamenn Rhein-Neckar-Löwen eða Frisch Auf Göppingen vildu ekki tjá sig um þessar sögusagnir og því er ekkert staðfest í þessum fréttum af framtíð íslenska landsliðsþjálfarans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×