Handbolti

AG í úrslitaleikinn um titilinn - Ólafur mjög góður í sigri á Kolding

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson.
Ólafur Stefánsson. Mynd/Heimasíða AGK
AG Kaupmannahöfn tryggði sér sæti í úrslitaeinvíginu um danska meistaratitilinn í handbolta með því að vinna fimm marka sigur á KIF Kolding, 28-23 í Boozt.com Arena, heimavelli AGK. Þetta var seinni leikur liðanna en liðin gerði 26-26 jafntefli í fyrri leiknum í Kolding.

AGK mætir Bjerringbro-Silkeborg í lokaúrslitunum en Bjerringbro-Silkeborg sló Team Tvis Holstebro út úr undanúrslitunum í dag með því að vinna 35-29 sigur á heimavelli í seinni leik liðanna. Team Tvis Holstebro vann fyrri leikinn með þriggja marka mun.

AG komst í 5-2 í dag og þá voru Ólafur, Guðjón og Snorri allir búnir að skora þar af Ólafur tvö mörk. AG var síðan skrefinu á undan og lagði grunninn að sex marka forystu í hálfleik, 16-10, með því að breyta stöðunni úr 8-7 í 12-7.

AG komst síðan í 21-12 í upphafi seinni hálfleiks en Kolding gafst ekki upp og minnkaði muninn aftur niður í fjögur mörk, 23-19. AG var hinsvegar sterkara á lokasprettinum og tryggði sér sæti í úrslitunum.

Ólafur Stefánsson átti mjög góðan leik í dag og var kosinn besti maður leiksins. Ólafur skoraði sex mörk en Guðjón Valur Sigurðsson skoraði fimm mörk og Snorri Steinn Guðjónsson var með þrjú mörk fyrir AG-liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×