Handbolti

Jesper Nielsen lætur einn leikmann AG heyra það

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rene Toft Hansen.
Rene Toft Hansen. Mynd/AFP
Jesper "Kasi" Nielsen, eigandi danska stórliðsins AG frá Kaupmannahöfn, er allt annað en sáttur við einn leikmann AG-liðsins. Danski landsliðslínumaðurinn Rene Toft Hansen er á leiðinni til Kiel á næsta tímabili og Nielsen vill meina að hann sé ekki með hugann við núverandi verkefni hjá AG.

„Ég er ekki ánægður með Rene Toft. Hann er ekki að spila vel að mínu mati. Hann lítur ekki út fyrir að vera leikmaður sem er að gefa allt sitt fyrir AGK. Hvenær skoraði hann eiginlega síðast mark fyrir AG?," sagði Jesper Nielsen í viðtali við danska blaðið BT.

„Að mínu mati ætti að hann að einbeita sér að mikilvægum leikjum með AG en ekki að því sem gerist hjá Kiel eftir nokkra mánuði. Hann þarf að gefa allt sitt í leikina með AG," sagði Nielsen en Rene Toft sjálfur skilur ekkert í eigandanum.

„Hann verður að standa við sín orð. Ég skil þetta samt ekki. Ég er mjög ánægður að vera í AG og ég legg mig alltaf hundrað prósent fram," sagði Rene Toft Hansen.

Svo gæti farið að AG og THW Kiel mætist í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en þau eru í sitthvorum undanúrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×