Handbolti

Kiel bikarmeistari í Þýskalandi | Ótrúleg sigurganga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Filip Jicha er einn besti handknattleiksmaður heims.
Filip Jicha er einn besti handknattleiksmaður heims. Nordic Photos / Getty Images
Sigurganga Kiel hélt áfram í dag þegar að liðið varð bikarmeistari í Þýskalandi eftir sigur á Flensburg í úrslitaleik, 33-31.

Kiel hefur unnið alla leiki sína í deild og bikar í vetur en nokkrar umferðir eru enn eftir af deildarkeppninni. Liðið tryggði sér þó meistaratitilinn fyrr í vikunni.

Liðið getur einnig unnið Meistaradeild Evrópu en Kiel er komið í undanúrslitum keppninnar. Sannarlega ótrúlegur árangur hjá þjálfaranum Alfreð Gíslasyni.

Sigurinn í dag var nokkuð öruggur en Flensburg náði þó að skora fjögur mörk í röð á lokasprettinum og minnka muninn í eitt mark, 29-28, þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum.

Þá varði Thierry Omeyer nokkur mikilvæg skot í markinu og Kiel gekk á lagið í sókninni. Filip Jicha skoraði ellefu mörk í leiknum, þar af sjö af vítalínunni. Kim Andersson átti einnig frábæran leik og skoraði sjö mörk.

Aron Pálmarsson kom við sögu í leiknum en náði ekki að skora að þessu sinni.

Vísir óskar Alfreð og Aroni innilega til hamingju með árangurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×