Handbolti

Guðjón Valur með átta mörk þegar AG sló út Evrópumeistara Barcelona

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðjón Valur og félagar höfðu ástæðu til að fagna líkt og eftir fyrri leikinn.
Guðjón Valur og félagar höfðu ástæðu til að fagna líkt og eftir fyrri leikinn. Mynd / Facebook-síða AG
Íslendingaliðið AG Kaupmannahöfn gerði sér lítið fyrir og sló Barcelona út úr Meistaradeildinni í handbolta í dag. AG tapaði síðari viðureign sinni gegn Barcelona 36-33 en vann sex marka sigur í fyrri leiknum.

Evrópumeistarar Barcelona höfðu frumkvæðið í fyrri hálfleik en AG var aldrei langt undan. Kaupmannahafnarliðið náði góðum spretti undir lok hálfleiksins og var staðan í hálfleik jöfn 17-17.

Gestirnir byrjuðu betur í síðari hálfleiknum og stóðu leikar 25-27 þegar tólf mínútur lifðu leiks.

Þá settu heimamenn í gírinn, skoruðu 5 mörk í röð á afar skömmum tíma og komust 30-27. Þá tók Magnus Anderson, þjálfari liðsins, leikhlé og endurskipulagði leik sinna manna.

Arnór Atlason, Guðjón Valur Sigurðsson, Ólafur Stefánsson og Snorri Steinn Guðjónsson stigu öðrum fremur upp á lokamínútunum og sáu til þess að Börsungar náðu ekki að auka forskot sitt nægilega. Sex síðustu mörk gestanna voru úr smiðju Íslendinganna.

Leiknum lauk með sigri Barcelona 36-33. Fyrri leik liðanna í Kaupmannahöfn lauk með 29-23 sigri AG sem fer áfram samanlagt 62-59.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur AG-manna með átta mörk. Ólafur Stefánsson skoraði sjö, Snorri Steinn Guðjónsson fjögur og Arnór Atlason þrjú mörk.

Siarhei Rutenka var markahæstur heimamanna með níu mörk.

AG hefur því tryggt sér sæti í undanúrslitum keppninnar. Undanúrslitin og úrslitin fara fram í Köln helgina 26.-27. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×