Handbolti

Jesper Nielsen, eigandi AG: Ólafur er í heimsklassa

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ólafur Stefánsson og Arnór Atlason fagna hér eftir leikinn í gær.
Ólafur Stefánsson og Arnór Atlason fagna hér eftir leikinn í gær. Mynd. / EHF.com
Handknattleiksmaðurinn Ólafur Stefánsson hefur ekki tekið neina ákvörðun um það hvort hann leggi skóna á hilluna eftir núverandi tímabil og mun sennilega taka ákvörðun um það eftir Ólympíuleikana í London í ágúst.

Ólafur fór á kostum með liði sýnu AG Köbenhavn þegar þeir náði að slá út Barcelona í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Ólafur Stefánsson lék algjört lykilhlutverk í leiknum og skoraði sjö mörk en alls voru skoruð 22 íslensk mörk í leiknum.

„Ég veit ekki hvort ég haldi áfram í handbolta eftir tímabilið, ég á bara eftir að ákveða mig," sagði Ólafur í viðtali eftir leikinn í gær.

„Ég vill alltaf lifa í augnablikinu og hugsa bara um einn dag í einu. Ég mun fara á Ólympíuleikana með landsliði mínu og tek síðan ákvörðun í framhaldinu af því."

„Við sáum leikmann á algjörum heimsklassa í kvöld," sagði Jesper Nielsen, eigandi AGK, um Ólaf eftir leikinn í gær.

„Ég hef unnið með honum núna í rúmlega þrjú ár, bæði hér og hjá Rhein-Neckar Löwen og að komast í undanúrslit er mikill áfangi fyrir okkur báða. Ég vona innilega að hann verði hjá okkur í eitt tímabil í viðbót."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×