Handbolti

Ísland í þriðja styrkleikaflokki á Ólympíuleikunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Valli
Ísland verður með Ungverjalandi í þriðja styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í Lundúnum.

Fyrirkomulagið á keppninni verður nánast það sama og fyrir fjórum árum þegar Ísland vann silfurverðlaun. Liðunum tólf verður skipt í tvo riðla og hefur þeim nú verið skipt í sex styrkleikaflokka.

Fjögur efstu liðin úr riðlunum tveimur komast í 8-liða úrslit og þá tekur við hefðbundin keppni með útsláttarfyrirkomulagi. En ólíkt leikunum í Peking verður ekki spilað sérstaklega um 5.-8. sætið.

Athygli vekur að Evrópumeistarar Danmerkur, eitt allra besta handboltalandslið heims, er sett í fimmta styrkleikaflokk með Argentínu - fyrir neðan gestgjafa Breta sem eru í fjórða styrkleikaflokki.

Ástæðan fyrir þessu er að heimsmeistararnir (Frakkland) eru í efsta styrkleikaflokki ásamt sterkasta liðinu af þeim sem unnu sinn riðil í forkeppninni (Spánn) sem fór fram nú um helginu.

Næstu lið á eftir í styrkleikaröðuninni eru hin liðin sem komust í gegnum forkeppnina en það lakasta í þeim hópi (Serbía) er í fjórða styrkleikaflokki ásamt gestgjöfunum (Bretland).

Því eru tveir styrkleikaflokkar eftir og þangað raðast allir álfumeistararnir í styrkleikaröð.

Dregið verður í riðla þann 30. maí næstkomandi en leikarnir hefjast þann 27. júlí.

Styrkleikaflokkarnir:

1: Frakkland, Spánn

2: Svíþjóð, Króatía

3: Ísland, Ungverjaland

4: Serbía, Bretland

5: Danmörk, Argentína

6: Suður-Kórea, Túnis




Fleiri fréttir

Sjá meira


×