Handbolti

Íslensku landsliðsmennirnir fá stutta pásu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Rhein-Neckar Löwen og Hamburg eigast við í mikilvægum leik í þýsku úrvalsdeildinni í dag en aðeins tveir dagar eru frá því að Ísland spilaði við Króatíu í forkeppni ÓL í Króatíu.

Landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson og línumaðurinn Róbert Gunnarsson eru á mála hjá Löwen sem er í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti í þýsku úrvalsdeildinni.

Fleiri leikmenn úr báðum liðum voru að spila með landsliðum sínum um helgina og álagið því mikið á þá leikmenn.

Fleiri Íslendingar verða í eldlínunni í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld. Kári Kristján Kristjánsson og félagar í Wetzlar fá þá Ásgeir Örn Hallgrímsson, Vigni Svavarsson og Hannes Jón Jónsson í Hannover-Burgdorf í heimsókn. Ásgeir Örn, Vignir og Kári spiluðu allir með Íslandi í Króatíu um helgina.

Löwen vann Hamburg þegar liðin mættust í september og alls hefur liðið unnið tíu af tólf síðustu leikjum sínum í þýsku úrvalsdeildinni. Löwen er nú í fimmta sæti deildarinnar með 37 stig en Hamburg er í því fjórða með 39.

Efstu þrjú lið deildarinnar fá sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð en Flensburg er nú í þriðja sætinu með 41 stig. Leikurinn í dag mun því hafa mikið um að segja um möguleika liðanna í þeirri baráttu á lokspretti deildarinnar.

Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport sem hefst klukkan 17.10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×