Handbolti

AGK búið að selja 17 þúsund miða á Barcelona-leikinn á Parken

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Ole Nielsen
Það verður örugglega mikið fjör á Parken í Kaupmannahöfn 20. apríl næstkomandi þegar AG Kaupmannahöfn tekur á móti Barcelona í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

AGK ákvað að færa leikinn yfir á Parken og það hafa þegar selst 17 þúsund miðar á leikinn. Nú eru aðeins fimm þúsund miðar eftir en Barcelona nýtti ekki eins marga miða og búist var við.

„Ég er náttúrulega ánægður með að við höfum pláss fyrir fleiri stuðningsmenn AGK á Parken og það mun ekki gera þetta neitt auðveldara fyrir Barcelona. Okkar menn munu svo sannarlega finna fyrir því að þeir eru á heimavelli," sagði Sören Colding, íþróttastjóri AGK.

Fjórir íslenskir landsliðsmenn spila með AGK, þeir Arnór Atlason, Snorri Steinn Guðjónsson, Ólafur Stefánsson og Guðjón Valur Sigurðsson en áður kemur að þessum leik munu þeir reyna að tryggja íslenska landsliðinu þátttökurétt á Ólympíuleikunum í London.

AGK setti áhorfendamet síðasta vor þegar þeir troðfylltu Parken í lokaúrslitum um danska meistaratitilinn en það komast ekki eins margir fyrir að þessu sinni þar sem að leikvöllurinn verður við endastúkuna. Með því eiga allir áhorfendur að sjá völlinn vel en svo var ekki raunin síðasta vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×