Handbolti

AG í smá vandræðum með Århus - vann á endanum með fimm mörkum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 6 mörk í kvöld.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 6 mörk í kvöld. Mynd/Heimasíða AGK
Ag Kaupmannahöfn lent í smá vandræðum með Århus Håndbold í fyrsta leik sínum í úrslitakeppni danska handboltans í Árósum í kvöld. AG vann á endanum fimm marka útisigur, 31-26, en AG var um tíma í seinni hálfleiknum komið þremur mörkum undir.

Århus Håndbold endaði í áttunda og síðasta sætinu inn í úrslitakeppnina og vann þrettán leikjum færra en AGK í deildarkeppninni. Þetta var því óvænt mótspyrna.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur íslensku leikmannanna í liði AG með 6 mörk, Snorri Steinn Guðjónsson skoraði 5 mörk og Ólafur Stefánsson var með eitt mark. Arnór Atlason náði ekki að skora. Mikkel Hansen var markahæstur hjá AG með 8 mörk en 7 þeirra komu í seinni hálfleik.

Århus-liðið komst í 3-1 og 7-5 en staðan var 15-15 í hálfleik. Århus var 22-19 yfir þegar seinni hálfeikur var hálfnaður en AGK breytti stöðunni úr 21-23 í 29-24 á tíu mínútna kafla og gerði út um leikinn á augabragði.

AGK tók tvö stig með sér úr deildarkeppninni og er því komið með fjögur stig en efsta liðið í þessum fjögurra liða riðli tryggir sér sæti í úrslitaeinvíginu um danska meistaratitilinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×