Handbolti

Kiel komið með tíu stiga forskot á toppnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Filip Jicha var frábær með Kiel í kvöld.
Filip Jicha var frábær með Kiel í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Kiel vann sannfærandi átta marka sigur á Füchse Berlin, 36-28, í uppgjöri tveggja efstu liðanna í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Þarna mættu íslensku þjálfararnir Alfreð Gíslason og Dagur Sigurðsson sem eru að gera frábæra hluti með liðin sín á þessu tímabili.

Kiel náði tíu stiga forskoti á Füchse Berlin með þessum sigri en lærisveinar Alfreðs Gíslasonar hafa unnið alla 26 deildarleiki sína á tímabilinu.

Kiel tók frumkvæðið strax í upphafi leiks og var 21-15 yfir í hálfleik. Füchse Berlin skoraði tvö fyrstu mörk seinni hálfleiks en Kiel hélt öruggu forskoti allan hálfleikinn og gerði endanlega út um leikinn með 7-1 spretti frá 39. til 46. mínútu.

Alexander Petersson lék aðeins vörnina með Füchse Berlin og komst ekki á blað en Aron Pálmarsson spilaði síðustu fimmtán mínútur leiksins og skoraði 1 mark úr 3 skotum.

Filip Jicha skoraði 10 mörk fyrir Kiel og Kim Andersson var með 9 mörk. Iker Romero og Mark Bult skoruðu 6 mörk fyrir Füchse.

Rúnar Kárason skoraði tvö mörk þegar Bergischer gerði 27-27 jafntefli við Göppingen á heimavelli.

Gummersbach vann Hildesheim 36-31 í kvöld og HSV Hamburg vann 26-21 útisigur á Balingen-Weilstetten.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×