Handbolti

Snorri Steinn dæmdur í tveggja leikja bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. Mynd/Heimasíða AG
Snorri Steinn Guðjónsson verður ekki með AG Kaupmannahöfn í tveimur næstu deildarleikjum liðsins eftir að danska sambandið dæmdi íslenska landsliðsmanninn í tveggja leikja bann í dag. Snorri Steinn fékk rautt spjald fyrir að tefja í lok leiks gegn SöndejyskE en hann kom í veg fyrir að SöndejyskE náði að komast í lokasóknina sína og AGK fagnaði í kjölfarið 29-28 sigri.

Rauða spjaldið og leikbannið hefur skapað mikla umræðu í Danmörku enda þykir mörgum dómurinn vera of harður. AG Kaupmannahöfn getur samt ekki áfrýjað leikbanninu því það er ekki lengra en tveir leikir.

Snorri Steinn missir af leikjum á móti Skive og Bjerringbro-Silkeborg en AG kaupmannahöfn er eins og er með sjö stiga forskot á Bjerringbro-Silkeborg á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar.

Snorri Steinn missir því af toppbaráttuslag við Bjerringbro-Silkeborg sem fer fram 3. mars en næsti deildarleikur hans verður á móti Skanderborg Håndbold 7. mars næstkomandi. Snorri Steinn getur aftur á móti spilað alla leiki AGK í Meistaradeildinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×