Handbolti

Frakkar fara stigalausir inn í milliriðilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Heims-, Evrópu- og Ólympíumeistarar Frakka fara stigalausir inn í milliriðla á EM í handbolta í Serbíu eftir þriggja marka tap á móti Ungverjum, 23-26, í lokaleik riðlakeppninnar í kvöld.

Ungverjar hafa komið mjög á óvart á þessu móti en þeir töpuðu ekki leik í riðlinum og fara með þrjú stig í milliriðilinn alveg eins og Spánverjar.

Frakkar unnu bara Rússa í riðlinum en töp á móti Spáni og Ungverjum þýða að það verður afar erfitt fyrir franska liðið að spila um verðlaun á þessu móti. Liðið hefur unnið gull á fjórum síðustu stórmótum.

Szabolcs Zubai skoraði 6 mörk fyrir Ungverja og Gergely Harsányi var með fjögur mörk en besti maður liðsins var markvörðurinn Nándor Fazekas sem varði 21 skot í leiknum. Xavier Barachet var markahæstur Frakka með 5 mörk.

Frakkar skoruðu þrjú fyrstu mörk leiksins en Ungverjar létu það ekki á sig fá og unnu sig strax inn í leikinn. Ungverjar jöfnuðu metin í 4-4 og komust síðan tveimur mörkum yfir í tvígang, 8-6 og 9-7. Frakkar skoruðu þá fimm mörk í röð og komust í 12-9. Franska liðið náði samt ekki að losa sig við Rússa var bara tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14-12.

Ungverjar skoruðu fyrsta mark seinni hálfleiks og minnkuðu muninn í eitt mark en það tók Frakka rétt tæpar fimm mínútur að skora í seinni hálfleiknum. Frakkar náðu reyndar aftur þriggja marka mun, 16-13, en Ungverjar jöfnuðu metin í 16-16 og náðu síðan tveggja marka forskoti, 22-20, þegar níu mínútur voru eftir.

Ungverjar gáfu þetta forskot ekki frá sér og unnu að lokum frábæran þriggja marka sigur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×