Handbolti

Skof: Skipað af þjálfara að tapa með 1-2 mörkum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórir fer hér inn úr horninu til að reyna að skora fram hjá Skof.
Þórir fer hér inn úr horninu til að reyna að skora fram hjá Skof. Mynd/Vilhelm
Slóvenarnir Gorazd Skof og Uros Zorman hafa tjáð sig um leikinn gegn Íslandi í gær þar sem Slóvenar gáfu eftir tvö mörk undir lokin til að tryggja að þeir færu áfram með tvö stig í milliriðilinn.

Ísland komst einnig áfram vegna þess en án stiga. Þetta bitnaði mest á Norðmönnum sem eru úr leik.

„Ég vildi standa mig eins vel og ég mögulega gat," sagði markvörðurinn Skof sem átti frábæran leik í gær. „En þjálfarinn skipaði okkur að tapa bara með einu eða tveimur mörkum."

Skof varði reyndar frá Þóri Ólafssyni á lokamínútunni en augljóst var að hann ætlaði sér ekki að gera það. Kári Kristján Kristjánsson fékk frákastið og skoraði en liðsfélagar Skof skömmuðu hann og sjálfur gat hann ekki annað en brosað að öllu saman.

Uros Zorman, besti leikmaður Slóvena, viðurkenndi að þeir hefðu fyrst og fremst verið að hugsa um sjálfa sig. „Þetta var engin sérstök háttvísi gagnvart Noregi en við urðum að hugsa um okkur sjálfa," sagði Zorman sem kastaði boltanum að því virtist viljandi frá sér tvívegis á lokamínútum leiksins.

Norðmaðurinn Erlend Mamelund var vitanlega ekki sáttur. „Það er eitthvað alvarlegt að regluverkinu þegar það er betra að tapa með tveimur mörkum en sjö," sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×