Handbolti

Hedin: Hefur verið mjög erfiður morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robert Hedin, þjálfari norska landsliðsins.
Robert Hedin, þjálfari norska landsliðsins. Mynd/Vilhelm
Robert Hedin, landsliðsþjálfari Noregs, var heldur niðurlútur þegar norskir fjölmiðlamenn ræddu við hann á hóteli norska liðsins í Vrsac í Serbíu.

Noregur er úr leik á EM eftir að hafa tapað fyrir Króatíu í gær. Liðið vann Slóveníu í fyrstu umferð en það dugði ekki til þar sem Slóvenar unnu Íslendinga í gær en bæði lið voru með betri árangur í innbyrðisviðureignum Noregs, Slóveníu og Íslands.

„Þetta hefur verið mjög erfiður morgun," sagði Hedin sem er reyndar Svíi. „Við komum til baka á hótelið í gær, ræddum málin í rólegheitun og stemningin var vissulega mjög þung. En mönnum léttist brúnin eftir stutta stund."

Litlu mátti muna fyrir Noreg. Hefði liðið fengið einu marki minna á sig gegn Íslandi eða skorað eitt mark til viðbótar gegn Slóveníu hefði það dugað til að komast áfram.

„Það er það sem er svo svekkjandi í dag vegna þess að við áttum aldrei séns gegn Króatíu. En við erum á réttri leið og erum að taka framfaraskref, hægt og rólega. Við erum að eignast fleiri og fleiri handboltamenn og höfum það sem þarf til að fara alla leið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×