Handbolti

Ótrúlegt sigurmark Hans Lindberg | Danir unnu Makedóníumenn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hinn íslenskættaði Hans Óttar Lindberg var hetja Dana í dag þegar hann skoraði hreint ótrúlegt sigurmark þeirra gegn Makedóníu á EM í Serbíu í dag. Danir eru þar með komnir á blað í milliriðlinum.

Staðan var jöfn, 32-32, þegar Makedónía fór í sókn og rúm mínúta eftir. Makedóníumenn fengu að hanga á boltanum ótrúlega lengi þar til að Kiril Lazarov tók skot að marki og aðeins 6-7 sekúndur eftir af leiknum.

Niklas Landin náði hins vegar að verja. Hann kom boltanum um leið á Mikkel Hansen sem grýtti honum fram á völlinn þar sem Lindberg var kominn. Hann skoraði um leið og leiktíminn rann út og Danir fögnuðu hreint mögnuðum sigri.

Þeir Hansen og Lazarov settu á svið sýningu í dag en báðir skoruðu tólf mörk í leiknum. Hansen skoraði fimm mörk í röð um miðbik hálfleiksins og Lazarov sá um að skora fimm af síðustu sex mörkum sinna manna.

Staðan í hálfleik var 19-16, Makedóníu í vil en Danir náðu að kmoast þremur mörkum yfir þegar níu mínútur voru eftir af leiknum. Makedóníumenn gáfust þó ekki upp og jöfnuðu metin tveimur mínútum fyrir leikslok.

Hans Lindberg skoraði alls átta mörk í leiknum og fann sig mjög vel. Bo Spellerberg kom einnig mjög sterkur inn í danska liðið og var með fimm mörk.

Danir eru nú með tvö stig í sínum milliriðli, rétt eins og Svíar sem gerðu jafntefli við Pólverja fyrr í dag. Makedónía er á botninum með eitt stig.

Toppliðin tvö, Þýskaland og Serbía, eru með fjögur stig og mætast klukkan 19.15.

ÚRslit og staða í öllum riðlum á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×