Handbolti

Guðmundur: Ég iða í skinninu

Guðmundur Guðmundsson segir að íslenska landsliðið muni eins og áður gefa allt sitt í þá leiki sem liðið á eftir á EM í Serbíu.

Ísland komst áfram í milliriðlakeppnina en án stiga sem minnkar möguleika liðsins á sæti í undanúrslitum talsvert. En strákarnir ætla ekki að leggja árar í bát.

„Ég er ánægður með að við skulum vera komnir í milliriðilinn. Við hefðum viljað fá með okkur stig en það má ekki gleyma því að tvö efstu liðin frá síðasta heimsmeistaramóti eru líka án stiga. Þetta getur komið fyrir fleiri lið," sagði Guðmundur en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„En það er gríðarlega mikilvægt upp á styrkleikaröðun fyrir næstu heimsmeistarakeppni að hafa komist áfram. Ég er ánægður með það og líka að við fáum nú tækifæri til að spila þrjá leiki til viðbótar."

„Við munum fara í hvern leik til að vinna og það verður ekkert gefið eftir í þeim leikjum sem við eigum eftir," sagði Guðmundur.

Guðmundur ræðir einnig þær breytingar sem hann gerði í leikmannahópi íslenska liðsins en þeir Aron Rafn Eðvarðsson og Rúnar Kárason komu inn í íslenska landsliðshópinn í gær á kostnað þeirra Hreiðars Levý Guðmundssonar og Odds Gretarssonar.

Hann ræðir einnig um ungverska liðið sem hefur komið gríðarlega á óvart, til að mynda með því að vinna heims-, Evrópu- og Ólympíumeistara Frakklands í riðlakeppninni. Guðmundur var á leið á fund með strákunum til að leggja línurnar fyrir leikinn og gat varla beðið.

„Við erum að fara á fundinn og ég get varla beðið eftir að hefja undirbúninginn. Við ætlum að skoða leikinn okkar frá því í fyrra gegn þeim og líka leik þeirra gegn Spánverjum. Ég iða í skinninu," sagði Guðmundur.

Leikur Íslands og Ungverjalands hefst í dag klukkan 15.10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×