Handbolti

Hundruð vopnaðra varða fyrir utan Pens Arena

Henry Birgir Gunnarsson í Novi Sad skrifar
Hluti þeirra hundruða lögreglumanna sem sinna skyldustörfum fyrir utan Pens Arena í dag. Sumir þeirra eru með allt að þrem byssum.
Hluti þeirra hundruða lögreglumanna sem sinna skyldustörfum fyrir utan Pens Arena í dag. Sumir þeirra eru með allt að þrem byssum. mynd/vilhelm
Það er farið að styttast í leik Íslands og Ungverjalands í Novi Sad. Það er fyrsti leikur dagsins af þremur í milliriðlinum og er óhætt að segja að löggæsluaðilar hafi áhyggjur af því að hér gæti soðið upp úr.

Öryggisgæslan í Vrsac var meiri en gengur og gerist en hér í Novi Sad er verið að fara með dæmið alla leið. Hér eru hundruð hermanna og óeirðalögreglu klárir í slaginn. Allir gráir fyrir járnum, með skildi, gasgrímu og allt upp í þrjú skotvopn.

Von er á bæði fjöldi Slóvena og Ungverja og serbnesk yfirvöld eru heldur betur klár í að taka á þeim sem ætla að vera með einhvern steyting. Ekki er ljóst hversu margir Króatar mæta en þeir hafa veigrað sér við að mæta á mótið og aðeins um 20 manns fylgdu liðinu í riðlakeppninni.

Leitað er á öllum sem koma inn í Pens Arena og þar á meðal fjölmiðlamönnum.

Höllin er síðan öll hin glæsilegasta en hún rúmar 8.000 manns í sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×