Handbolti

Fazekas varði eins og berserkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fazekas fór illa með Frakkana í fyrradag.
Fazekas fór illa með Frakkana í fyrradag. Nordic Photos / Getty Images
Nandor Fazekas, markvörður Ungverja, átti ótrúlegan leik í fyrradag þegar að hans lið gerði sér lítið fyrir og skellti heims-, Evrópu- og Ólympíumeisturum Frakka.

Ungverjar unnu leikinn, 26-23, og náðu þar að auki jafntefli gegn Spánverjum og Rússum í milliriðlinum.

Fazekas varði til að mynda úr hraðaupphlaupi Frakka þegar staðan var 22-21 fyrir Ungverja. Frakkar hefðu því jafnað metin en í stað þess gengu Ungverjar á lagið og kláruðu leikinn á lokamínútunum.

Samtals varði hann 21 skot í leiknum og var með 48 prósenta hlutfallsmarkvörslu. Það kom engum á óvart að hann var valinn maður leiksins og var honum óspart hrósað af þjálfara og leikmönnum franska liðsins eftir leik.

Frakkar komust áfram í milliriðlana en án stiga þar sem þeir töpuðu bæði fyrir Spáni og Ungverjalandi í C-riðli.

Ísland mætir Ungverjalandi klukkan 15.10 í dag og ljóst að með Fazekas og Ungverja í þessum ham verða þeir erfiðir viðureignar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×