Handbolti

Aron: Gaman að sjá litlu strákana koma inn

Henry Birgir Gunnarsson í Novi Sad skrifar
Aron á ferðinni í dag.
Aron á ferðinni í dag. mynd/vilhelm
Aron Pálmarsson var í gríðarlegu stuði eftir sigurinn á Ungverjum í dag og lék á alls oddi undir stúkunni. Aron gekk ekki heill til skógar í dag en náði samt að skila sínu.

"Ég fékk hrikalegt tak í bakið í gærmorgun. Ég gat ekki labbað, setið né æft í gær. Ég lá bara upp í rúmi. Þegar ég hnerraði þá meiddi ég mig. Þetta var mjög vont og er búinn að fara í sjúkraþjálfun tólf sinnum á skömmum tíma. Fór meira að segja í nálastungumeðferð tveim tímum fyrir leik," sagði Aron.

"Ég ákvað að láta á þetta reyna. Setti á mig hitakrem og hitaði upp. Verður maður ekki að leggja sig allan í þetta," sagði strákurinn sem er ekki lengur kjúklingurinn í liðinu.

Nú voru komnir inn í liðið gamlir félagar Arons úr yngri landsliðum Íslands.

"Það var æðislegt og algjör snilld. Þetta eru alvöru gæjar sem hita ekkert við þetta. Þeir bara negla á þetta, eru hrokafullir og að sanna sig," sagði Aron og tók svo smá pásu.

"Það er reyndar hálfskrítið að ég sé að tala svona um stráka á mínum aldri. Já, það er gaman að sjá litlu strákanna koma inn," sagði Aron og hló dátt ásamt þeim Ólafi Bjarka og Rúnari Kárasyni.

"Ég drullaði yfir vörnina eftir síðasta leik en nú vorum við allir frábærir í vörn. Ég drullaði líka yfir greyið Bjögga og hann á líka hrós skilið. Það er bara þannig með Bjögga að hann er svo góður að maður verður meira sár út í hann því hann á alltaf að verja svo vel. Það var frábært að sjá hann stíga upp í dag og við gleðjumst allir með honum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×