Handbolti

Naumur sigur Frakka á Slóvenum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Spiler í baráttunni við Daniel Narcisse.
David Spiler í baráttunni við Daniel Narcisse. Nordic Photos / AFP
Frakkland er rétt eins og Ísland komið á blað í milliriðli 2 á EM í Serbíu en liðið vann í dag afar nauman sigur á Slóveníu, 28-26.

Slóvenar byrjuðu betur í leiknum og voru skrefi framar nánast allan fyrri hálfleikinn. Frakkar náðu þó að minnka muninn fyrir hálfleik en staðan að honum loknum var 15-14, Slóvenum í vil.

Jafnt var á nánast öllum tölum eftir þetta en Frakkar náðu að síga fram úr með öflugri vörn og markvörslu á síðustu fimm mínútum leiksins. Þá náðu Slóvenar að skora aðeins eitt mark.

Thierry Omeyer, markvörður Frakka, átti góðan dag og varði mikilvægt skot úr hraðaupphlaupi Slóvena þegar rúm mínúta var til leiklsloka. Þá var staðan 27-26 fyrir Frakka.

Slóvenar fengu svo aftur tækifæri til að skora úr hraðaupphlaupi og jafna þar með metin þegar 40 sekúndur voru eftir en slóvenski hornamaðurinn fékk dæmda á sig línu.

Frakkar héldu í sókn og Jerome Fernandez tryggði Frökkum endanlega sigurinn með marki þegar örfáar sekúndur voru til leiksloka.

Þetta eru góðar fréttir fyrir Ísland. Ef strákarnir okkar ætla sér að fara áfram verða þeir helst að vinna alla sína leiki, treysta á að Króatar geri slíkt hið sama en Slóvenar mega þá ekki fá meira en þrjú stig úr sínum leikjum í milliriðlinum.

Xavier Barachet skoraði sex mörk fyrir Frakka í dag og Omeyer varði fjórtán skot í markinu. Hjá Slóveníu var Luka Zvizej markahæstur með sex mörk en Primoz Prost varð fimmtán skot.

Úrslit, dagskrá og staðan í öllum riðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×