Handbolti

Makedóníumenn héldu út á móti Pólverjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Makedónía vann tveggja marka sigur á Póllandi 27-25, í fyrsta leik dagsins í milliriðli eitt á EM í handbolta í Serbíu. Makedónía var sex mörkum yfir í hálfleik og náði að hanga á forystunni í þeim seinni. Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson dæmdu leikinn og gerðu það vel.

Pólverjar unnu upp ellefu marka forskot á móti Svíum á laugardaginn og voru nálægt því að vinna upp sjö marka forskot Makedóníumann í dag. Þeir eiga enn von með að komast áfram en til þess þurfa þeir að vinna Þjóðverja í lokaleiknum og treysta á Danir vinni ekki Svía.

Kiril Lazarov skoraði 9 mörk fyrir Makedóníu og er orðinn langmarkahæstur á Evrópumótinu. Borko Ristovski varði frábærlega í markinu eða alls 19 skot. Bartosz Jurecki skoraði mest fyrir Pólverja eða fimm mörk.

Makedónía tók strax frumkvæðið í leiknum dyggilega studdir af litríkum og hávaðasömum áhorfendum. Makedóníumenn komust í 4-1, 10-4 og 16-9 en þeir voru síðan sex mörkum yfir í hálfleik, 18-12. Borko Ristovski varði 12 skot í fyrri hálfleik eða 50 prósent skota sem komu á hann.

Makedóníumenn náðu sjö marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks en Pólverjar skoruðu fjögur mörk í röð og minnkuðu muninn í þrjú mörk, 20-17, þegar tuttugu mínútur voru eftir.

'

Makedóníumenn náðu aftur sex marka forskoti í leiknum, 25-19, en Pólverjar gáfust ekki upp og náðu að minnka muninn í tvö mörk. 25-23, með því að skora aftur fjögur mörk í röð. Pólverjar komust hinsvegar ekki nær og Makedóníumenn fögnuðu sigri.

Úrslit, dagskrá og staðan í öllum riðlum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×