Handbolti

Danir eiga enn möguleika á undanúrslitunum - unnu Þjóðverja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Danir eiga enn möguleika á því að komast í undanúrslit á EM í handbolta í Serbíu eftir tveggja marka sigur á Þjóðverjum, 28-26, í öðrum leik dagsins í milliriðli tvö.

Danir komu óvænt stigalausir inn í milliriðilinn eftir tap fyrir Serbum og Pólverjum í riðlakeppninni en hafa nú unnuð tvo fyrstu leiki sína í milliriðlinum. Danir eru með fjögur stig, einu minna en Þjóðverjar og Serbar sem spila seinna í kvöld.

Anders Eggert skoraði sjö mörk fyrir Dani og Hans Lindberg var með fimm mörk. Niklas Landin varði vel í markinu sérstaklega á lokakaflanum þegar Þjóðverjar sóttu að Dönum. Uwe Gensheimer, Christoph Theuerkauf, Lars Kaufmann og Michael Haaß skoruðu allir fjögur mörk fyrir þýska liðið.

Það leit ekki vel út fyrir Dani í byrjun leiks því Þjóðverjar komust strax í 2-0 og voru 5-1 yfir eftir aðeins fimm mínútna leik. Ulrik Wilbek, þjálfari Dana, var fljótur að taka leikhlé og hans menn voru í framhaldinu búnir að jafna metin í 6-6 eftir rúmar sjö mínútur.

Þjóðverjar náðu aftur tveggja marka forskoti en 6-1 sprettur Dana kom þeim í 14-11 forystu þegar tæpar sex mínútur voru til hálfleiks. Danir héldu þessu forskoti fram að hálfleik og voru 17-14 yfir í leikhléi.

Þjóðverjar minnkuðu muninn í tvö mörk í upphafi seinni hálfleik en þrjú dönsk mörk í röð komu Dönum aftur í fimm marka forystu. Danir virtust vera í góðum málum þegar 17 mínútur voru eftir enda 24-19 yfir.

Þjóðverjar skoruðu þá fjögur mörk í röð á aðeins fimm mínútum og minnkuðu muninn í eitt mark, 24-23, þegar rúmar tólf mínútur voru eftir af leiknum.

Leikhlé frá Wilbek náði aftur að kveikja í hans mönnum, þeir náðu aftur þriggja marka forskoti og lönduðu dýrmætum sigri. Niklas Landin varð 7 skot á lokakafla leiksins.



Úrslit, dagskrá og staðan í öllum riðlum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×