Handbolti

Serbar fyrstir til að tryggja sig inn í undanúrslitin á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Serbía tryggði sér sæti í undanúrslitum á EM í handbolta í Serbíu eftir þriggja marka sigur á Svíþjóð, 24-21, í lokaleik dagsins í milliriðli eitt. Serbar er því komnir með sjö stig (af átta mögulegum) og hafa tveggja stiga forskot á Þjóðverja og þriggja stiga forskot á Dani þegar ein umferð er eftir. Svíar eru hinsvegar neðstir í milliriðlinum.

Marko Vujin skoraði 5 mörk fyrir Serba og Zarko Sesum var með fjögur mörk en Darko Stanic fór síðan á kostum í markinu. Kim Ekdahl du Rietz skoraði 8 mörk fyrir Svía, Niclas Ekberg var með 4 mörk og Johan Sjöstrand varði 18 skot í markinu.

Svíar virtust ætla að bíta frá sér í byrjun leiks því þeir komust í 6-3 eftir tæpar tólf mínútur. Serbar skoruðu þá fimm mörk í röð og komust 8-6 yfir. Serbarnir voru síðan einu til tveimur mörkum á undan út hálfleikinn og leiddu að lokum með þremur mörkum í hálfleik, 14-11.

Serbar náðu fjögurra marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks en Svíar gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í eitt mark, 18-17, þegar tólf mínútur voru eftir af leiknum. Serbar voru hinsvegar sterkari, náðu strax aftur þriggja marka forskoti og lönduðu síðan sigrinum og sætinu í undanúrslitunum við mikinn fögnuð áhorfenda í höllinni.

Úrslit, dagskrá og staðan í öllum riðlum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×