Handbolti

Guðjón Valur: Þurfum að ná upp sömu vörn og gegn Ungverjum

Henry Birgir Gunnarsson í Novi Sad skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Mynd/Vilhelm
Guðjón Valur Sigurðsson hefur verið frábær á EM. Skorað grimmt, spilað fína vörn og svo leyst hlutverk vítaskyttu með miklum bravör en vítanýtingin á stórmóti er óvenju góð að þessu sinni.

„Ég hef sagt það áður að ég tek að mér þau hlutverk sem ég er beðinn um. Svo reynir maður að sinna þeim verkefnum almennilega," sagði Guðjón Valur hógvær en hann hefur margoft verið í hlutverki vítaskyttu hjá félögum sínum.

Fram undan er leikur við Spánverja sem tefla fram ógnarsterku liði sem hefur ekki enn tapað leik á mótinu.

„Þetta er jafnasta liðið á mótinu. Þeir jafnt og þétt malla í gegnum leikina. Þeir virðast vera að brjóta andstæðinginn niður allan leikinn. Leggja þungann sinn á liðin og þegar andstæðingurinn þreytist síga þeir fram úr," sagði Guðjón en hann vill meina að Ísland eigi samt möguleiki.

„Við sáum að Ungverjar áttu möguleika í þá og nældu í jafntefli. Við þurfum að ná upp sömu varnarvinnu og gegn Ungverjum. Menn verða líka að fórna sér algjörlega fyrir félagana. Ef sama vinnsla næst upp í vörninni þá erum við illviðráðanlegir. Skiptir engu máli á móti hverjum við erum að spila."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×