Handbolti

Ásgeir Örn: Vorum ekki nógu grimmir

Henry Birgir Gunnarsson í Novi Sad skrifar
Ásgeir brýst hér í gegn.
Ásgeir brýst hér í gegn. mynd/vilhelm
"Þeir voru miklu betri en við í dag. Þeir byrjuðu sterkar, voru ákveðnari og vissu betur hvað þeir ætluðu að gera í byrjun leiksins. Þá náðu þeir strax fínu forskoti og við vorum að elta það forskot allan leikinn," sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson sem hefur verið að spila vel fyrir íslenska liðið í Serbíu.

"Svo fórum við illa með færin líka í leiknum. Vörn og markvarsla hjá þeim lagði grunninn að þessu því sóknin okkar hefur verið til fyrirmyndar í dag en hún hökti svolítið í dag og þá aðallega í fyrri hálfleik.

"Tæknifeilarnir voru of margir og við vorum að láta þá narra okkur í hluti sem við áttum ekki að gera. Svona er þetta stundum," sagði Ásgeir en hvernig útskýrir hann þessa slöku byrjun?

"Ég veit ekki hvort það vantaði tiltrú en við vorum ekki nógu grimmir og tókum ekki nógu fast á móti. Við vorum kannski pínu hræddir við að þeir myndu finta okkur upp úr skónum. Það gengur ekki," sagði Ásgeir en íslenska liðið lýkur keppni í milliriðlinum gegn Frökkum á morgun.

"Það verður bara gaman. Við höfum allt að vinna og engu að tapa. Við þurfum að mæta brosandi í þann leik. Frakkarnir eru rosalega góðir en hafa verið að klikka og því verðum við að selja okkur dýrt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×