Handbolti

Króatar sýndu styrk sinn á móti Frökkum | Frakkar verja ekki titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Mirko Alilović, markvörður Króata, lokaði markinu á úrslitastundu þegar Króatar unnu öruggan sjö marka sigur á Frökkum, 29-22, í öðrum leik dagsins í milliriðli tvö á Evrópumótinu í handbolta í Serbíu. Alilović fór í gang í lokin eins og á móti Íslandi og kláraði hreinlega franska liðið.

Spánverjar hafa sjö stig í riðlinum og eru komnir áfram en Króatar eru með sex stig og gætu bæst í hópinn fyrir lok kvöldsins. Slóvenar geta tryggt Króatíu sæti í undanúrslitunum með því að vinna Ungverja í lokaleik kvöldsins. Vinni Ungverjar hinsvegar þá spila Króatía og Ungverjaland hreinan úrslitaleik um sætið á morgun.

Frakkar hafa unnið undanfarin fjögur stórmót og urðu Evrópumeistarar í Austurríki fyrir tveimur árum. Þetta tap þýðir hinsvegar að liðið er bara með tvö stig og á ekki lengur möguleika á því að spila um verðlaun á mótinu.

Marko Kopljar og Ivan Čupić skoruðu báðir sjö mörk en Kopljar átti frábæran leik. Blaženko Lacković skoraði fjögur mörk. Jérôme Fernandez og Xavier Barachet voru markahæstir hjá Frökkum með fjögur mörk hvor.

Króatar voru með frumkvæðið í byrjun leiks og 9-6 yfir þegar 20 mínútur voru búnar af fyrri hálfleiknum. Frakkar skoruðu þá fimm mörk í röð á sjö mínútna kafla og komust í 11-9. Frakkar voru síðan 12-11 yfir í hálfleik.

Frakkar voru áfram með tveggja marka forskot í upphafi seinni hálfleiks en þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka fór króatíska liðið í gang. Króatar unnu næstu þrettán mínútur 8-2 og komust fimm mörkum yfir, 24-19. Króatar áttu ekki í miklum með að klára leikinn eftir þetta.

Úrslit, dagskrá og staðan í öllum riðlum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×