Handbolti

Fjögur lið eiga enn möguleika á sæti í undanúrslitum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þjóðverjar standa best að vígi fyrir leiki dagsin en eiga erfiðan leik gegn Póllandi.
Þjóðverjar standa best að vígi fyrir leiki dagsin en eiga erfiðan leik gegn Póllandi. Nordic Photos / Getty Images
Lokaumferð milliriðlakeppninnar fer fram á EM í handbolta í dag og ríkir talsverð spenna í milliriðli 1 um hvaða lið muni fylgja Serbíu áfram í undanúrslit.

Fjögur lið eiga enn möguleika á að komast áfram - Þýskaland (5 stig), Danmörk (4 stig), Pólland (3 stig) og Makedónía (3 stig). Þjóðverjar standa best að vígi enda dugir þeim sigur gegn Pólverjum í fyrsta leik dagsins til að komast áfram. Skiptir þá engu hvernig aðrir leikir dagsins fara.

Pólland er aðeins með þrjú stig í riðlinum en sigur gegn Þýskalandi og fimm stig gætu dugað Pólverjum til að komast áfram - en aðeins ef úrslit í öðrum leikjum verða liðinu hagstæð. Danir verða helst að tapa fyrir Svíum og Makedónía mætti ekki vinna Serbíu.

Sú staða gæti reyndar komið upp að Þýskaland, Danmörk, Makedónía og Pólland endi öll með fimm stig og flækjast þá málin verulega. Makedónía á reyndar ekki möguleika á að komast áfram verði það niðurstaðan en hin þrjú löndin ættu öll enn möguleika.

Makedóníumenn komast áfram ef þeir vinna Serba, Danir tapa fyrir Svíum og Pólverjar vinna Þjóðverja með 1 eða 2 mörkum.

Möguleikar Dana felast fyrst og fremst í því að vinna Svíþjóð og treysta á að Þýskaland vinni ekki Pólverja.

Úrslit, dagskrá og staða í öllum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×