Handbolti

Guðmundur: Innkoma ungu leikmannanna stórkostleg

Henry Birgir Gunnarsson í Novi Sad skrifar
Guðmundur var ánægður með leik sinna manna í dag.
Guðmundur var ánægður með leik sinna manna í dag. mynd/vilhelm
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari var nokkuð sáttur eftir jafnteflisleik gegn Frökkum. Íslenska liðið hefur þar með lokið keppni á EM í Serbíu.

"Við vorum ansi nálægt þessu núna. Við spiluðum frábæran fyrri hálfleik en gáfum aðeins eftir í lok hálfleiksins. Sóknarleikurinn var samt stórkostlegur alveg frá byrjun. Þeir prófuðu margar varnir gegn okkur en það breytti litlu því við áttum alltaf svör.

"Síðari hálfleikur var kannski ekki eins góður sóknarlega. Við náðum ekki að halda þetta jafn vel út. Engu að síður er ég sáttur við sóknarleikinn í heild sinni í þessum leik," sagði Guðmundur.

"Ég er tiltölulega ánægður með varnarleikinn hjá okkur í dag. Við höfum verið að bæta varnarleikinn jafnt og þétt á þessu móti. Það er ekkert auðvelt að verjast gegn þessu liði en mér fannst við gera það vel á köflum.

"Þegar upp er staðið held ég að þetta hafi verið sanngjörn úrslit og ég held að við getum verið nokkuð sáttir við þennan leik. Það er margt jákvætt við hann. Innkoma ungu leikmannanna var stórkostleg og verður lengi í minnum höfð," sagði Guðmundur.

"Óli Bjarki kom sterkur inn með tvö mörk og Rúnar hefur svo komið mjög ákveðið inn hjá okkur og að spila með fullu sjálfstrausti. Það hefur verið virkilega gaman að fylgjast með þeim.

"Kári þarf að bæta skotnýtinguna en var að skapa sér færi. Stóð sig vel í gær og margt jákvætt við hans innkomu. Það var líka gaman að setja Aron Rafn inn.

"Mér fannst hans innkoma sannfærandi og yfirvegun yfir honum. Hann var að taka bolta og nálægt því að verja fleiri. Það fannst mér jákvætt að sjá. Hann er klárlega framtíðarmarkvörður ef hann heldur áfram að æfa á fullu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×