Handbolti

Spánverjar sterkari í lokin á móti Slóvenum | Mæta Dönum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Spánverjar tryggðu sér sigur í milliriðli tvö með því að vinna þriggja marka sigur á Slóvenum, 35-32, í lokaleik sínum í milliriðli á EM í handbolta í Serbíu. Slóvenar voru lengi vel með forystuna en héldu ekki út og spænska liðið kláraði leikinn í lokin.

Spánverjar mæta Dönum í undanúrslitunum en Slóvenar þurfa að bíða eftir úrslitunum úr leik Ungverja og Króata til þess að fá að vita hvort þeir fá að spila um fimmta sætið á mótinu.

Iker Romero skoraði sjö mörk fyrir Spán og Joan Canellas var með sex mörk. Luka Zvizej skoraði sjö mörk fyrir Slóvena og þeir Dragan Gajic og Sebastian Skube voru báðir með sex mörk.

Fyrri hálfleikurinn var jafn á flestum tölum en Slóvenar voru með lengstum með frumkvæðið. Slóvenía komst í 6-4 eftir tíu mínútna leik og voru 14-12 yfir þegar fimm mínútur voru eftir en í millitíðinni komust Spánverjar einu marki yfir. Spánverjar unnu síðustu fimm mínútur hálfleiksins 3-1 og staðan var jöfn í hálfleik, 15-15.

Slóvenar byrjuðu seinni hálfleikinn vel og voru komnir með fjögurra marka forystu, 21-17, þegar aðeins sjö mínútur voru búnar af hálfleiknum.

Spænska liðið fór þá fyrst í gang og var búið að jafna metin í 24-24 á aðeins sex mínútum. Spænska liðið var síðan miklu sterkari á lokasprettinum og tryggði sér sannfærandi sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×