Handbolti

Wilbek: Núna er tíminn til að vinna Spánverja | Verða enn sterkari á ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ulrik Wilbek og Mikkel Hansen.
Ulrik Wilbek og Mikkel Hansen. Mynd/AFP
Ulrik Wilbek, þjálfari danska landsliðsins, sér fram á mjög erfiðan undanúrslitaleik á móti Spánverjum á morgun. Hann segir jafnframt að spænska liðið eigi eftir að verða enn sterkara á Ólympíuleikunum þegar Spánverjar fá inn tvo sterka leikmenn.

„Þetta er líklega það lið á mótinu sem hefur sýnt mestan stöðugleika og þeir eru líka það lið sem er með mestu breiddina," sagði Ulrik Wilbek og hann talar sérstaklega um gríðarlega breidd spænska liðsins í leikstjórnendastöðunni.

„Þeir skera sig úr frá öðrum liðum á mótinu í hvernig þeir spila varnarleikinn sinn. Þeir eru mjög fljótir á fótunum og klókir. Það kemst ekkert lið upp með að gera mistök á móti Spánverjum. Við áttum í miklum vandræðum með þá í undanúrslitum HM í fyrra," sagði Ulrik Wilbek en Danir komust þá í úrslitaleikinn eftir fjögurra marka sigur á Spánverjum, 28-24.

Wilbek segir að Spánverjar verði enn sterkari á Ólympíuleikunum í London en liðið fær þá inn markvörðinn Arpad Sterbik og stórskyttuna Laszlo Nagy.

„Núna er tíminn til að vinna Spánverja því þeir verða enn sterkari á Ólympíuleikunum. Við eigum samt góða möguleika. Þetta verður jafn og spennandi leikur á milli liða sem þekkja hvort annað mjög vel," sagði Wilbek.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×