Handbolti

Arnór Atla: Getum spjarað okkur án eins besta leikmanns heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/DIENER
Landsliðsmaðurinn Arnór Atlason var í viðtali við danska handbolta-netmiðilinn HBOLD.dk eftir Totalkredit Cup æfingamótið um helgina. Íslenska liðið endaði þá í öðru sæti eftir tap á móti Dönum í úrslitaleiknum.

„Við fengum að prófa okkur á móti góðum handboltaþjóðum og fengum að vita um stöðuna á bæði sókninni og vörninni okkar," sagði Arnór en hann leikur eins og kunnugt er með danska stórliðinu AG Kaupmannahöfn.

„Við erum án Ólafs Stefánssonar sem er líklega besti handboltamaðurinn í heimi og höfum sýnt það að við getum spjarað okkur án hans. Við erum á góðri leið á báðum endum vallarins," sagði Arnór.

„Við unnum brons á síðasta Evrópumóti og vorum mjög ánægðir með það. Við gerum okkur grein fyrir því að það er löng leið framundan ef við ætlum að komast aftur svona langt. Við erum í erfiðum riðli og verðum að taka stig með okkur inn í milliriðilinn ef við ætlum spila aftur um efstu sætin," sagði Arnór.

Arnór var frábær á síðasta Evrópumóti sem fór fram í Austurríki 2010. Hann skoraði flest mörk íslenska liðsins, 41 í 8 leikjum, auk þess að gefa 49 stoðsendingar á félaga sína í liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×