Handbolti

Ólafur Bjarki: Þetta eykur smá egóið hjá manni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Bjarki Ragnarsson.
Ólafur Bjarki Ragnarsson. Mynd/Valli
„Mér líst mjög vel á þetta og er spenntur fyrir því að fá að prófa það að fara með strákunum út á stórmót," sagði Ólafur Bjarki Ragnarsson, annar tveggja nýliðanna í EM-hópi Íslands. Ólafur Bjarki hefur staðið sig mjög vel með HK-liðinu í vetur og fær nú tækifærið á sínu fyrsta stórmóti þrátt fyrir að eiga aðeins fimm landsleiki að baki.

„Ég bjóst ekki alveg við þessu en Snorri Steinn komst ekki með og maður vonaðist bara til að fá tækifærið á meðan hann var ekki með," sagði Ólafur Bjarki.

„Ég kom mér inn í öll kerfin og reyndi að gera mitt besta. Það hefur gengið ágætlega því ég er nú kominn inn í hópinn," sagði Ólafur Bjarki.

„Ég veit ekkert hvort ég fái eitthvað að spila en maður bíður bara og vonar. Þú verður síðan bara að spyrja Gumma að því," sagði Ólafur Bjarki í léttum tón. Hann viðurkennir að það breyti miklu að hvorki Snorri Steinn Guðjónsson né Ólafur Stefánssyni verði með íslenska liðinu í Serbíu.

„Snorri og Ólafur er mjög reynslumiklir leikmenn og það fylgir því ákveðið óöryggi að vera með þá. Þetta verður öðruvísi verkefni fyrir hina strákana sem hafa verið í hópnum," sagði Ólafur.

„Það er búið að ganga ágætlega hjá okkur HK í vetur. Nú reynir maður að fá þetta inn í reynslubankann og koma síðan sterkur inn í seinni helminginn. Þetta eykur smá egóið hjá manni og það er bara flott," sagði Ólafur Bjarki að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×