Handbolti

Mikkel Hansen fagnar kílóunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hansen.
Mikkel Hansen. Mynd/AFP
Mikkel Hansen, stórskytta AG Kaupmannahöfn og danska landsliðsins, er ánægður með að hafa bætt við sig nokkrum kílóum og segir það hjálpa sér inn á handboltavellinum. Hansen verður í stóru hlutverki með Dönum á EM í Serbíu.

„Það gengur bara vel að þyngja sig. Ég er svona 98 til 99 kíló núna. Þetta snýst reyndar ekki um að bæta við kílóunum sem slíkum heldur um að verða sterkari og fá meiri sprengikraft," segir Mikkel Hansen við TV 2.

„Ég er búinn að þyngja mig um þrjú kíló og ég finn greinilega fyrir því að það hjálpar mér inn á vellinum ekki síst í stöðunni maður á mann, bæði í vörn og sókn. Það er hið besta mál," segir Mikkel Hansen.

Það hefur verið umræða um það að Mikkel Hansen sé orðinn besti handboltamaður í heimi en hann sjálfur er nú ekki sammála því.

„Ég á nú enn nokkuð í land til að ná því. Það eru enn nokkrir leikmenn sem eru betri en ég," sagði Mikkel Hansen sem var markahæstur á HM í fyrra með 68 mörk.

„Ég er samt á réttri leið og vonandi kemst ég á þennan stall. Ég geri allt sem ég get til að verða betri og vonandi skilar sú vinnan sér inn á vellinum," sagði Hansen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×