Handbolti

Verja verðlaun í fyrsta sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Diener
Íslenska handboltalandsliðið er á leiðinni á sitt sjöunda Evrópumót og að þessu sinni liggur leið strákanna til Serbíu. Fyrir tveimur árum náðu strákarnir hápunktinum þegar þeir unnu bronsið í Austurríki.

Það virðist ekki vera langt síðan mögnuð skutla Alexanders Petersson reddaði málunum í leiknum um 3. sætið á móti Póllandi og strákarnir okkar fögnuðu bronsinu skömmu síðar með silfur í hárinu.

Nú tveimur árum síðar er komið að næsta Evrópumóti og strákarnir okkar eru í fyrsta sinn mættir á stórmót þar sem þeir hafa verðlaun að verja. Ólympíusilfrið vannst vissulega sautján mánuðum fyrr en næstu Ólympíuleikar eru ekki fyrr en í London í sumar.

Saga íslenska landsliðsins á EM telur orðið sex mót en Ísland er ein af sjö þjóðum sem hafa verið með á öllum Evrópumótum á nýrri öld.

30. maí 1999

30. maí 1999 er einn af mörgum merkilegum dögum í sögu íslenska karlalandsliðsins í handbolta og örugglega með þeim allra dramatískustu. Þá fór fram lokaleikur íslenska liðsins í undankeppni EM 2000 og eftir níu marka stórtap í fyrri leiknum á móti Sviss leit allt út fyrir að íslenska landsliðið myndi missa af fjórða Evrópumótinu í röð.

Evrópumótið hafði farið fram á tveggja ára fresti frá og með árinu 1994 en íslenska landsliðið sat eftir í undankeppninni í hvert skipti. Króatía og Hvíta-Rússland skildu okkur eftir í riðlinum fyrir EM 1994, Rússar og Rúmenar fóru á EM 1996 úr okkar riðli og tveimur árum síðar sat íslenska liðið einnig eftir í undankeppninni en Júgóslavíu og Litháen komust áfram á EM 1998.

Þarna voru Svisslendingar mættir í Kaplakrikann og máttu tapa með 8 eða 9 mörkum því það kom ekki í ljós fyrr en löngu eftir leik. Íslenska liðið skoraði sex síðustu mörk fyrri hálfleiks, var 16-10 yfir í hálfleik og vann leikinn að lokum með níu marka mun eftir að Róbert Julian Duranona skoraði lokamarkið þremur sekúndum fyrir leikslok.

Átta eða níu mörk

Það var þó engin sigurstund í leikslok, ekki síst eftir að vallarþulurinn tilkynnti að Íslendingar hefðu setið í riðlinum vegna þess að þeir höfðu skorað færri mörk á útivelli. Áhorfendur fóru því súrir heim og strákarnir í liðinu sáu enn eitt Evrópumótið renna sér úr greipum.

Þegar fulltrúar HSÍ náðu loksins sambandi við Alþjóðahandknattleikssambandið, kom í ljós að íslenska liðið var komið áfram eftir allt saman þar sem liðið var með betri markatölu úr öllum leikjum riðilsins. Íslenska liðið hafði áður unnið tvo risasigra á Kýpur og það voru þeir sem skiluðu liðinu sæti á EM í Króatíu.

Allir löngu farnir heim

Áhorfendurnir voru löngu farnir heim en strákarnir fögnuðu sætinu á EM í Króatíu í klefanum. Biðin var löng eftir fyrsta Evrópumótinu en hún var einnig löng eftir fyrsta sigurleiknum á EM. Íslenska liðið tapaði nefnilega fyrstu fimm leikjum sínum og vann ekki leik fyrr en í leik um 11. og næstsíðasta sætið gegn Úkraínumönnum.

Tveimur árum síðar var allt annað upp á teningnum þegar íslenska liðið komst alla leið í undanúrslitin en sá á eftir verðlaunum eftir 11 marka tap fyrir Svíum í undanúrslitaleiknum og 7 marka tap fyrir Dönum í leiknum um 3. sætið.

EM Í Slóveníu 2004 voru mikil vonbrigði þar sem íslenska liðið vann ekki leik og komst ekki upp úr sínum riðli. Íslenska landsliðið endaði síðan í 7. sæti á EM í Sviss tveimur árum síðar eftir tap fyrir Króötum og Norðmönnum í síðustu tveimur leikjum sínum.

Íslenska liðið fann sig ekki á Evrópumótinu í Noregi árið 2008. Íslenska liðið lá fyrir Svíum og Frökkum í riðlakeppninni og fór stigalaust inn í milliriðilinn. Eftir átta marka tap í fyrsta leik á móti Þjóðverjum var von um undanúrslitasæti úr sögunni en þá átti liðið sinn besta leik og vann átta marka sigur á Ungverjum. Ísland tapaði síðan með sjö mörkum fyrir Spánverjum í lokaleiknum og varð að sætta sig við 11. sætið.



Mynd/AFP
Ævintýrið í Austurríki

Síðasta Evrópumót sem fram fór í Austurríki var hins vegar mikið ævintýri þótt byrjunarerfiðleikar í riðlinum bentu ekki til þess að liðið væri að fara að spila um verðlaun á mótinu.

Íslenska liðið gerði jafntefli í tveimur fyrstu leikjum sínum á móti Serbíu og Austurríki eftir að vera nánast með unninn leik í þeim báðum. Liðið fór hins vegar með þrjú stig í milliriðilinn eftir glæsilegan fimm marka sigur á Dönum í lokaleik riðilsins.

Ísland gerði jafntefli við Króata í fyrsta leiknum í milliriðlinum en tryggði sér síðan sæti í undanúrslitunum með því að vinna Rússa og Norðmenn. Íslensku strákarnir áttu ekki mikla möguleika í undanúrslitaleiknum á móti Frökkum en tryggðu sér bronsið með því að vinna 29-26 sigur á Pólverjum í leiknum um þriðja sætið.

Nú er komið að því að verja bronsið og það er öllum ljóst að það verður mjög erfitt eftir ævintýrið frá því í Austurríki, ekki síst þar sem fyrirliðinn og hugsuðurinn Ólafur Stefánsson verður fjarri góðu gamni. Hvernig sem gengur mun íslenska þjóðin fylgjast vel með eins og alltaf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×